Viðtal við Sjálfsrækt í Vikunni

09. september 2021 | Fróðleikur

Guðrún Arngrímsdóttir og Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir kynntust í Háskóla Íslands og komust að því að þær ættu heilmargt sameiginlegt og hefðu báðar brennandi á öllu sem viðkæmi heilsu, hvort sem það væri líkamleg eða andleg heilsa. Þær fengu þá hugmynd að stofna fyrirtæki undir nafninu Sjálfsrækt sem nú er orðið að veruleika þar sem þær leggja mikla áherslu á sjálfsvinsemd en þær segja dýrmætt að læra með æfingum að verða sín besta vinkona eða vinur.

Þær segja frá fyrirtækinu í viðtali í nýjustu Vikunni. Sjálfsrækt býður upp á námskeið, fyrirlestra og ráðgjöf um andlegt og líkamlegt heilbrigði og vellíðan en meðal annars er unnið út frá aðferðum jákvæðrar sálfræði og markþjálfunar.

Lífsnauðsynlegt að taka tíma fyrir sjálfan sig

Hrafnhildur segir að eins og orðið sjálfsrækt bendi til feli hugtakið í sér að rækta sjálfan sig. „Við leggjum rækt við okkur sjálf með öllu því sem við gerum meðvitað til að hlúa að andlegri og líkamlegri heilsu okkar. Með því að gefa okkur tíma til að rækta okkur sjálf stuðlum við að góðri andlegri heilsu og auðvitað líkamlegri líka. Þetta virkar svo einfalt þegar talað er um það en oft er þetta eitthvað sem situr á hakanum því við setjum okkur svo oft aftarlega á forgangslistann. Sjálfsrækt er allt það sem við gerum sem gefur okkur orku og endurnærir.“

„Það gefur augaleið að ef tankurinn okkar er tómur þá höfum við ekkert að gefa af okkur.“

„Það er líka ágætt að ítreka að það að taka tíma fyrir sjálfan sig er ekki sjálfselska,“ skýtur Guðrún inn í. „Það er lífsnauðsynlegt. Við þurfum að komast að því hvað það er sem við þurfum til að virka vel í daglegu lífi. Hvað það er sem við þurfum til þess að geta sannarlega verið til staðar fyrir okkur sjálf og okkar nánustu. Það gefur augaleið að ef tankurinn okkar er tómur þá höfum við ekkert að gefa af okkur. En þetta þarf að gerast með ásetningi en ekki af hendingu. Við verðum að taka frá tíma og búa til tíma í stundaskránni okkar sem við eigum algerlega fyrir okkur sjálf. Þetta getur þýtt að við þurfum að forgangsraða.“

Lestu viðtalið í heild sinni í 4. tölublaði Vikunnar. Þar gefa þær Guðrún og Hrafnhildur lesendum einnig góð ráð fyrir sjálfsrækt.

0
    0
    Your Cart
    Your cart is emptyReturn to Shop