Að gera gott betra

09. september 2021 | Fróðleikur

Markþjálfun út frá hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði. Hvernig þessar tvær greinar tengjast og styðja hvor við aðra.

„Jákvæð sálfræði? Þarf maður þá bara alltaf að vera voðalega jákvæður?“ Þessari spurningu og ýmsum útgáfum af henni hef ég oft svarað með brosi á vör. Það er ef til vill ekkert einkennilegt að fólk haldi að jákvæð sálfræði fjalli um að vera jákvæður, þar sem nafnið gefur það vissulega til kynna. Jákvæð sálfræði snýst hinsvegar þó ekki um að við eigum „bara alltaf“ að líta á björtu hliðarnar, setja upp rósrauð gleraugu eða leika Pollýönu þrátt fyrir erfiðleika eða áskoranir í lífinu. Hún snýst sannarlega um jákvæðni upp að vissu marki en þessi vísindagrein nær mun dýpra en það.

Leiðarljós jákvæðu sálfræðinnar er að skoða jákvæða mannlega eiginleika og hvað geri lífið þess virði að lifa því.

Viðfangsefni jákvæðrar sálfræði eru til að mynda styrkleikar frekar en veikleikar og áherslan er lögð á hvernig auka megi vellíðan frekar en að koma í veg fyrir vanlíðan. Vellíðan á við um það þegar einstaklingur metur að eigið líf gangi vel. Vellíðan getur sannarlega verið til staðar þrátt fyrir áskoranir í lífinu og felur í sér að upplifa jákvæðar tilfinningar, hegðun eða hugsanir og snýst því alls ekki um að „vera bara alltaf voðalega jákvæður“.

Hugmyndafræði markþjálfunar og jákvæðrar sálfræði tengjast órjúfanlegum böndum þar sem þessar tvær greinar styðja hvor aðra á margvíslegan hátt. Markþjálfun er aðferð sem hjálpar fólki að finna tilgang sinn og lífshamingju og jákvæða sálfræðin býður upp á gagnreyndar aðferðir sem styðja við þá leit. Markþjálfun getur sannarlega laðað fram það besta í fólki og því er tenging hennar við jákvæðu sálfræðina augljós

Jákvæða sálfræðin býr yfir verkfærakistu sem kallast jákvæð inngrip en þau eru athafnir sem miða að því að ýta undir jákvæðar tilfinningar, hegðun eða hugsanir. Tilgangurinn miðar að því að fá einstaklinga til þess að sjá það góða við líf sitt og að aðstoða þá við að átta sig á því hvaða áhrif þeir geta sjálfir haft á að auka eigin vellíðan.

Nokkur dæmi um jákvæð inngrip eru:

· Að læra að bera kennsl á og að nýta styrkleika sína, til dæmis með styrkleikasamtali við markþjálfa.

· Að stunda núvitund og læra þar með að taka eftir því sem gerist innra með manni með væntumþykju og mildi og án þess að gagnrýna.

· Að taka frá tíma að kvöldi, líta yfir daginn og skrifa niður þrjá hluti sem maður er þakklátur fyrir.

Ég útskrifaðist sem markþjálfi árið 2011 og lærði jákvæða sálfræði átta árum síðar. Síðustu tvö ár hef ég öðlast reynslu í að nýta þessar aðferðir í markþjálfasamtölum og get með sanni sagt að sambland þessara tveggja frábæru aðferða er árangursrík leið til þess að aðstoða einstaklinga við að auka eigin vellíðan á meðvitaðan og markvissan hátt.

Kærleikskveðjur,

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir Heilsuráðgjafi og markþjálfi

https://www.calameo.com/books/006009329418957f6d2ca

0
    0
    Your Cart
    Your cart is emptyReturn to Shop